Ágústa Pétursdóttir, varð dúx Háskólabrúar Keilis nú á dögunum þegar að hún lauk náminu með meðaleinkunnina 9,64. Af því tilefni ákváðum við að heyra í henni en hún lauk námi í Menntastoðum hjá Mími áður en að hún hóf nám á Háskólabrú Keilis. Við spurðum hana út í námið, framtíðina og hversu stórt skref það getur virst í fyrstu að setjast á skólabekk. Með frábæran árangur í farteskinu liggur leiðin í viðskiptafræðina og Ágústa spennt fyrir frekara námi.

Stórt skref að ákveða að fara í nám

Það getur verið stórt skref að hefja nám að nýju. Við spurðum Ágústu út í það hvernig sú ákvörðun blasti við henni þegar hún ákvað að sækja um í Menntastoðum í Mími. „Ég myndi segja að ákvörðunin að fara í Menntastoðir hafi verið stór. Að taka skrefið og fara í aftur í nám var stórt og innst inni var ég búin að mikla þetta mikið fyrir mér. Það var liðinn langur tími frá því ég sat síðast á skólabekk, hið daglega líf örlítið annasamara en áður bæði með fjölskyldu og í fullri vinnu. Minn helsti ótti var að geta ekki tvinnað þessa þætti saman, ásamt því að vera smeyk við stærðfræðina enda taldi ég það vera nánast ómögulegt að taka stærðfræði í fjárnámi ef ég ætlaði á annað borð á ná henni,“ segir Ágústa.

Þetta er mun minna mál en þið haldið!

Hvað kom þér mest á óvart við að setjast að nýju á skólabekk? „Ótrúlegt en satt þá kom það mér mest á óvart hvað það var gaman að byrja aftur í námi þó það væri vissulega krefjandi, ég kom sjálfri mér líka sífellt á óvart. Ég held bara að þegar maður er orðinn örlítið eldri læri maður að meta það ganga menntaveginn. Fjarnámsleiðin hentaði mér líka gríðarlega vel þar sem ég er pínu fiðrildi og því rosalega gott að geta lært svolítið eftir sínu sniði, hlustað á fyrirlestra og horft á sýningadæmi þegar hentaði hverju sinni.“ Þegar Ágústa er spurð hvort hún hafi skilaboð til þeirra sem eru að hugsa um að fara í nám í Menntastoðum segir hún einfaldlega: „Fyrir fólk í sömu sporum sem hyggst fara í Menntastoðir ráðlegg ég þeim að byrja bara helst í gær, þetta er mun minna mál en þið haldið!“

Íslenskan góður grunnur í ritgerðirnar

„Undirbúningurinn í Menntastoðum nýttist mér vel fyrir áframhaldandi nám. Þetta er rosalega góður undirbúningur. Þó svo að maður sé alltaf hræddastur við stærðfræðina þá voru íslensku áfangarnir í Menntastoðum ekki síður mikilvægir þar sem grunnurinn var lagður fyrir ritgerðasmíð, orðalag og annað sem nýttist mér gríðarlega vel í áframhaldandi námi í Keili.“

Stærðfræðidraugurinn hrellir margan nemandann

Nú óttast margir að taka upp þráðinn í stærðfræðinni. Reyndist þér það erfitt? „Ég ætla ekki að ljúga og segja að stærðfræðin hafi verið auðveld og ég hugsa að sá þáttur sem við nemendur höfum flest átt sameiginlegan er sá að við vorum öll skíthrædd við stærðfræði. Það sem ég hef lært á þessu skólaævintýri er hversu mikilvægur stærðfræðikennarinn er. Ég var bæði einstaklega heppin með kennara í Menntastoðum og svo síðar meir með stærðfræðikennarann minn í Keili. Ég man þegar ég leit fyrst yfir námsáætlunina í stærðfræði í Menntastoðum hugsaði ég bara guð minn góður, hvernig er þetta hægt? Svo er maður smá „klikk“ að maður fer að kíkja á dæmin sem sett eru fyrir seinna á námskeiðinu og missir þá allan kjark! Þannig mitt ráð er að byrja bara á byrjuninni og taka eitt dæmi í einu, hlusta á sýnidæmin og reikna þau dæmi sem liggja fyrir. Þetta er vinna og uppskeran af henni í lokin er mjög sæt og get ég næstum lofað því að ef þið leggið eitthvað af mörkum í þessa vinnu þá munuð þið koma sjálfum ykkur verulega á óvart,“ segir Ágústa brosandi.

Einn dagur í einu og eitt skref í einu

Við spyrjum að lokum hverjar voru helstu áskoranirnar í náminu og hvernig Ágústa sigraðist á þeim. Það er vert að minnast á náms- og starfsráðgjafana sem alltaf eru tilbúnir að vera nemendum innan handar. „Þegar ég hóf fjarnám var mér fljótt ljóst að ég þyrfti að finna sjálfsagann til þess að setjast niður og læra. Það getur alveg verið snúið að koma heim eftir átta tíma vinnudag, sinna heimilislífinu og ætla svo að setjast niður og læra. Ég skráði mig í 100% nám með 100% vinnu því mig langaði svo að klára þetta sem fyrst. Það var kannski sú allra stærsta áskorun fyrir mig við þetta nám því ég er með smá „strax“ veiki. Eftir á litið myndi ég alltaf mæla með að taka frekar fjárnám með vinnu sem er þá tekið á lengri tíma ef fólk hyggst vinna samhliða náminu. En með mjög góðu skipulagi þá hafðist þetta allt á endanum. Ég held að það felist í því að taka einn dag í einu og einblína frekar á þau verkefni sem bíða þann dag heldur en að horfa á öll verkefnin í einu því þá lítur þetta út eins og fjall sem ekki er séns að klífa í staðinn fyrir að byrja bara á fyrsta skrefinu upp fjallið og áður en þú veist af ertu kominn á toppinn, segir Ágústa að lokum.“