Flokkur: Virkninámskeið

Vertu starfsmaður 21. aldarinnar!

 

Næsta námskeið verður haust 2021, nánar auglýst síðar. 

Vefst tæknin fyrir þér? Stígðu fyrsta skrefið inn í tækniheiminn með Mími!   

Finnst þér erfitt að skilja tæknihugtökin? Námskeiðið miðast við að nálgast tæknina og útskýra tæknihugtök á „mannamáli“ með það að markmiði að efla sjálfstraust gagnvart tækni.  

Um námskeiðið

Hagnýtt námskeið fyrir alla þá sem þurfa og vilja styrkja sig í tækni. Á námskeiðinu er leitast við að efla einstaklinga í þeirri tækni sem mest ákall er um að einstaklingar tileinki sér til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði. Námskeiðið snýr að því að upplýsa einstaklinga um möguleg áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar á samfélagið og einstaklinga á vinnumarkaði, sem og greina ákjósanlega hæfni og færni hvað varðar tækni með tilliti til niðurstaðna Stafræna hæfnihjólsins sem VR-stéttarfélag hefur þróað og hjálpar einstaklingum að greina eigin tæknifærni. 

Námskeiðið er samtals 28 klukkustundir og skiptist í tvo hluta.  

Fyrri hlutinn (12 klukkustundir) snýr að því að útskýra hvað felist í því að geta talist hinn eftirsótti „21. aldar starfsmaður“ og styðja þátttakendur til þess að takast óhræddir á við tæknibreytingar sem snerta þá sjálfa. Fjórða iðnbyltingin er útskýrð og fá þátttakendur stuðning við að greina eigin tæknifærni með aðstoð stafræns greiningartækis.   

Í seinni hluta námskeiðsins (4x4 klukkustundir) fá þátttakendur stuðning við að stíga fyrsta skrefið inn í heim tækninnar og meðal annars skilja Google vinnuumhverfið, ýmis forrit og stillingar þeirra, hvernig hægt er að búa til og breyta stafrænu efni, sem og hvernig hægt er að nýta samfélagsmiðla á hagnýtan hátt.  

Félagsmenn í starfsmenntasjóðunum Starfsafl, Landmennt, Sveitamennt, Ríkismennt og Starfsmenntasjóði verslunar- og skrifstofufólks fá námskeiðið að fullu niðurgreitt. 

Námskeiðið er haldið í samvinnu við: 

                       

 

Tímasetning

Haust 2021 

 

Námsþættir

 

Fyrri hluti:

  • Fjórða iðnbyltingin 
  • Leiðarvísar að farsælu lífi
  • Stafræna hæfnihjólið

 

Seinni hluti - Örvinnustofur (4 klukkustundir hver):

  • Hagnýting samfélagsmiðla (sóknarfæri á samfélagsmiðlum)
  • Google í starfi, leik og námi (hluti af óþrjótandi möguleikum Google umhverfisins kynntir)
  • Stafræn gagnavinnsla (myndvinnsla o.fl) 
  • Forritun og stillingar (tölvuhlutar, tengingar og sjálfvirknivæðing)

 

Námskeiðið er kennt í fjarnámi.  Þeir sem telja sig þurfa stuðning við fjarnám er velkomið að sitja námskeiðið í húsnæði Mímis að Höfðabakka 9 og fá stuðning við að tæknina og námið.

Kennarar á námskeiðinu eru sérfræðingar í sínu fagi og vanir að nálgast nemendur á mismunandi getustigi hvað tækni varðar.

Umsjónarmaður: María Stefanía Stefánsdóttir, maria@mimir.is   

 

Inntökuskilyrði

Námskeiðið er fyrir alla þá 18 ára og eldri sem þurfa og vilja styrkja sig í tækni og láta tæknina vinna með sér, hvort sem er í einkalífi eða starfi.

Námskeiðið er hugsað sem fyrsta skref inn í tækniheiminn. Þú þarft alls ekki að vera tæknisnillingur til að geta sótt þetta námskeið.

Nemendur þurfa að hafa yfir að ráða nettengingu og tölvu með vefmyndavél (flestar tölvur eru með innbyggða vefmyndavél). Við veitum þér ráðgjöf og stuðning varðandi tæknibúnaðinn. Einnig er þér velkomið að sitja námskeiðið í húsnæði Mímis að Höfðabakka 9 og fá stuðning við að tæknina og námið.

Námsmat

Sjálfsmat í lok námskeiðs. Þátttakendur fá skírteini sem vott um að hafa lokið námskeiði.

Kennslustaður

Kennsla og samskipti við kennara fara fram á vefnum í formi fjarfunda með Teams forritinu. Vilji nemendur koma í húsnæði Mímis og fá stuðning við tæknina eða sitja námskeiðið þar er bent á að hafa samband við umsjónarmann námskeiðsins. 

Styrkir/niðurgreiðslur

Starfsafl, Landsmennt og Starfsmenntastjóður verslunar- og skrifstofufólks greiða námskeiðið að fullu fyrir sína félagsmenn. Mikilvægt er að skrá stéttarfélagsaðild í umsóknarferli þegar þú skráir þig til leiks. 

Þeir sem eru utan þessara sjóða geta sótt um styrk til síns stéttarfélags. Fræðslusjóðir stéttarfélaganna niðurgreiða námið allt að 90%. Nauðsynlegt er að greiða fyrir námið fyrst og framvísa svo frumriti af reikningi til viðkomandi stéttarfélags til að fá endurgreiðsluna.

Stundatafla/kennslufyrirkomulag

Námskeiðið er auglýst sem fjarnámskeið en þó munu nemendur hitta hvern annan og kennara í gegnum fjarfundarbúnaðinn Teams. Teams er einfalt í notkun allir sem þurfa fá stuðning til að koma sér af stað með það. 

Verð

Félagsmenn í starfsmenntasjóðunum Starfsafl, Landsmennt og Starfsmenntasjóði verslunar- og skrifstofufólks fá námskeiðið að fullu niðurgreitt. Við veitum þér allar upplýsingar um hvernig þú berð þig að til að geta skráð þig á námskeiðið með þeirra liðsstyrk. Mikilvægt er að skrá stéttarfélagsaðild í umsóknarferli þegar þú skráir þig til leiks. 

Almennt verð er kr. 89.000. Fræðslusjóðir stéttarfélaganna niðurgreiða námið allt að 90%. Nauðsynlegt er að greiða fyrir námið fyrst og framvísa svo frumriti af reikningi til viðkomandi stéttarfélags til að fá endurgreiðsluna.

 

 

Spurt og svarað

Hvernig get ég vitað í hvaða stéttarfélagi ég er?

Þú getur séð á síðasta launaseðlinum þínum í hvaða stéttarfélag þú hefur greitt síðast

Hvernig get ég vitað að stéttarfélagið mitt tilheyri Starfsafli, Landsmennt eða Starfsmenntasjóði verslunar- og skrifstofufólks?

Smelltu hér til að sjá lista yfir hvaða stéttarfélag tilheyrir hvaða sjóði

Ég á ekki tölvu, get ég samt komið á námskeiðið?

Já, hafðu samband við umsjónarmann námskeiðsins og þið finnið leið. 

Fæ ég staðfestingu á að ég hafi klárað þetta námskeið?

Já, allir sem ljúka námskeiðinu fá viðurkenningarskjal