Þróunar- og tilraunaverkefni eru mikilvægur þáttur í starfsemi Mímis-símenntunar.

 

Markmið þróunarverkefna hjá Mími-símenntun eru:


• að þróa námsefni, námsleiðir og kennsluaðferðir
• að miðla nýjungum og þekkingu
• að koma á tengslum og rækta tengslanet
• að efla starfsmenn

Í flestum tilvikum eru þróunar- og tilraunaverkefni samstarfsverkefni. Þau eru styrkt af opinberum aðilum, aðilum vinnumarkaðarins eða Erasmus+, Grundtvig eða Nordplus áætlunum.
Þeir sem hafa áhuga og hugmyndir um þróunarstarf í samstarfi við Mími-símenntun eru hvattir til að hafa samband í síma 580 1800 eða senda póst á mimir@mimir.is


Þróunarverkefni – í gangi

Til heilsu og starfa
Markmið verkefnisins er að hanna og kenna 80 stunda nám fyrir þann hóp innflytjenda sem hvað höllustum fæti stendur á vinnumarkaði vegna veikinda, slysa eða annarra áfalla. Þeir eiga oft erfitt með að nýta sér meðferðarúrræði og endurhæfingu vegna slakrar íslenskukunnáttu. Hluti af verkefninu er að þróa tæki til þarfagreiningar auk mælinga á árangri fyrir hópinn. Verkefnið er unnið í samstarfi við VIRK endurhæfingu og Reykjalund.
Verkefnið er styrkt af Þróunarsjóði innflytjendamála.

Raunfærnimat í öryggisfræðum í afþreyingarþjónustu
Verkefnið snýr að gerð gátlista, skimunarlista og verkfæra til raunfærnimats á Björgunarmaður I sem kennt er af Björgunarskóla Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Verkefnið er styrkt af Þróunarsjóði framhaldsfræðslunnar.

Sjósókn. Tækifæri og áskoranir í íslenskum sjávarútvegi 2015
Markmið verkefnisins er að efla menntun sjómanna. Raunfærnimat og leiðir til að stunda nám í Menntastoðum óháð nettengingu er hluti af verkefninu. Verkefninu er stýrt af SÍMEY en Mímir-símenntun er samstarfsaðili og ber ábyrgð á hluta verksins. Verkefnið er styrkt af Þróunarsjóði framhaldsfræðslunnar og Sjómennt.

Námsleið fyrir starfsfólk á endurvinnslustöðvum
Verkefnið felst í þarfagreiningu og gerð þriggja 60 stunda námskráa fyrir starfsfólk við söfnun, móttöku og meðhöndlun úrgangs, endurvinnslu brotamálma og annarra endurvinnsluefna og móttöku spilliefna. Verkefnið er styrkt af Þróunarsjóði framhaldsfræðslunnar.

Þjónusta og upplýsingagjöf
Markmið verkefnisins eru að hanna námsleið fyrir starfsfólk með stutta formlega menntun sem starfar við móttöku, símsvörun og upplýsingagjöf á samfélagsmiðlum. Markmiðið með námsleiðinni er að mæta þörf ólíkra fyrirtækja fyrir vel menntað starfsfólk og mæta þörf samfélagsins fyrir sérhæft starfsfólk með áherslu á samskipti og sjálfstraust í fjölmenningarlegu samfélagi. Verkefnið er styrkt af Þróunarsjóði framhaldsfræðslunnar.

Verkfærni í framleiðslu II - Marelskólinn.
Markmið verkefnisins eru m.a. að hanna sérhæft nám og þjálfun fyrir starfsfólk í framleiðslufyrirtæki, að greiða leið þátttakenda til náms í formlega skólakerfinu, að dýpka og bæta við þekkingu frá fyrra námi (byggðu á námskránni Verkfærni í framleiðslu I) með bóklegu námi og sértækri verklegri þjálfun og að námskrárnar VF I og VF II verði vísir að viðurkenndu starfsnámi. Verkefnið er unnið í samstarfi við Marel og fer námið þar fram. Verkefnið er styrkt af mennta- og menningarmálaráðuneytinu. 

GOAL. Guidance and Orientation for Adult Learners – styrkt af Erasmus+ áætluninni.
Verkefnið miðar að því að þróa ráðgjöf í átt að færniuppbyggingu fyrir viðkvæma hópa fullorðinna nemenda. Hópráðgjöf og eftirfylgni er hluti af verkefninu. Verkefninu er stýrt af mennta- og menningarmálaráðuneytinu en FA stýrir því á Íslandi. Mímir-símenntun er einn af samstarfsaðilum um framkvæmd á Íslandi.

Fast Track - styrkt af Erasmus+ áætluninni.
Verkefnið snýst um að þróa verkfæri og aðferðir við að meta starfsþekkingu og starfsfærni innflytjenda og aðlaga íslenskum aðstæðum. Á Íslandi verður lögð áhersla á störf sem snúa að umönnun og þjónustu við aldraða.

 

Þróunarverkefnum – lokið á síðustu tveimur árum

Námsmat í Grunnmenntaskóla og Almennum bóklegum greinum.
Markmiðið með verkefninu var að endurskoða námsmat í námsleiðum FA með það fyrir augum að gera það gagnsærra og staðlað. Tilgangurinn var m.a. að lokamat á námsárangri gæfi skýrt til kynna hvort nemandi hafi náð ákveðnum áföngum í framhaldsskólakerfinu. Í verkefninu var lögð áhersla á að þróa símat og sjálfsmat með fjölbreyttum aðferðum með skýra tengingu við markmið náms. Verkefnið var styrkt af Þróunarsjóði framhaldsfræðslunnar.

Vöruhús: Hönnun námsleiðar fyrir starfsfólk í vöruhúsum
Markmið verkefnisins var að hanna námsleið og kenna námskeið fyrir einstaklinga sem hafa áhuga á að starfa í í vöruhúsum. Starfsþjálfun í vöruhúsi var hluti af verkefninu. Námið kom til móts við einstaklinga með stutta formlega skólagöngu að baki. Færnikröfur til þessara starfa voru greindar og hæfniviðmið á hæfniþrepi tvö voru til hliðsjónar í námsleiðinni. Verkefnið var styrkt af Þróunarsjóði framhaldsfræðslunnar.

Nám á vinnustað - Efling lykilfærni og starfshæfni á vinnustað
Meginmarkmiðið var að þróa nýjar leiðir til að ná til þeirra starfsmanna á vinnustöðum sem hafa hvað minnsta menntun og erfiðast hefur reynst að hvetja til færnieflingar og starfsþróunar. Einnig að veita þátttakendum hvatningu og bjóða upp nám sem miðaði að því að styrkja lykilfærni í læsi, stærðfræði og ensku. Verkefnið var unnið í samstarfi við Vífilfell. Verkefnið var styrkt af Þróunarsjóði framhaldsfræðslunnar.

Þjónusta við ferðamenn fyrir innflytjendur.
Í verkefninu voru námskrárnar Færni í ferðaþjónustu I og II aðlagaðar fólki af erlendum uppruna. Aukin áhersla var lögð á fræðslu um íslenskt samfélag og sögu auk ýmissa þjónustuþátta. Kennsla og námsefni var á ensku. Markmiðið var m.a. að auka starfsmöguleika í ferðaþjónustu meðal atvinnuleitenda af erlendum uppruna, að auka aðkomu atvinnulífsins að námsleiðinni og að gefa innflytjendum tækifæri til að kynnast íslensku samfélagi og menningu á nýjan hátt. Verkefnið var styrkt af mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Íslenska og starfsþjálfun
Markmið verkefnisins er að þróa 60 kest. sérhæft viðbótarnám í íslensku við námsleiðina Grunnnám fyrir skólaliða auk fjögurra vikna starfsþjálfunar á vinnustöðum. Markhópurinn eru atvinnuleitendur af erlendum uppruna sem hafa áhuga á að starfa á leik- eða grunnskólum. Stuðningur við bæði nemendur og vinnustaði auk markvissrar þjálfunar í íslensku á meðan á starfsþjálfun stendur er hluti af verkefninu. Hugmyndafræði Íslenskuþorps HÍ er til grundvallar í íslenskukennslunni og samstarfi við vinnustaði. Verkefnið er styrkt af Þróunarsjóði framhaldsfræðslunnar.

Grunnmenntaskóli fyrir innflytjendur
Markmið verkefnisins var að þróa aðferðir og námsefni innan námsskrár Grunnmenntaskólans til að koma til móts við hóp fullorðinna innflytjenda með stutta formlega menntun. Verkefnið var styrkt af Þróunarsjóði framhaldsfræðslunnar.

Fjölmenning í námshópum Mímis
Markmiðið var að innleiða fjölmenningarlega stefnu innan Mímis-símenntunar, m.a. með því að þróa kennsluhætti, móttöku nemenda og námsferlið í námsleiðum FA sem eru kenndar hjá Mími með tilliti til fjölmenningarlega námshópa. Verkefnið var styrkt af Þróunarsjóði framhaldsfræðslunnar.

Íspól. Þróun námsleiða fyrir Pólverja.
Markmiðið var að þróa og kenna námskeið fyrir atvinnuleitendur af pólskum uppruna. Alls var námið 230 kest, þar af 30 í starfsþjálfun á vinnustað, en það var nýjung. Óskir nemenda um vinnustað voru hafðar til hliðsjónar. Verkefnið var styrkt af mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Greining á starfsmenntun pólskra atvinnuleitenda.
Í verkefninu var hönnuð og framkvæmd könnun til að greina starfsmenntun pólskra atvinnuleitenda. Markmiðið var einnig meta áhuga á starfsmenntun á Íslandi og þá hvers konar menntun, auk þess að leggja fram tillögur um úrræði og raunfærnimat fyrir hópinn. Verkefnið var styrkt af mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Grunnnám fyrir túlka af erlendum uppruna.
Í verkefninu var unnið með rýnihópum túlka og notendum þjónustunnar til að hanna grunnnámskeið fyrir túlka. Haldið var námskeið sem var 80 kest og drög að námskrá send menntamálaráðuneytinu. Verkefnið var styrkt af mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Túlkanám framhald: Þarfagreining og námskeið
Í verkefninu var lögð áhersla á þarfagreiningu fyrir góða túlkun á sviðum sem tengjast löggæslu og þjónustu vegna hælisleitenda auk félagsþjónustu. Námskeið fyrir túlka var kennt í framhaldi þar sem rétt notkun og skilningur hugtaka, bæði á íslensku og á móðurmáli túlkanna, var í forgangi. Verkefnið var styrkt af mannréttindaráði Reykjavíkurborgar og Þróunarsjóði innflytjendamála.

Tækninám og tölvuviðhald fyrir námsmenn með sérþarfir.
Markmið verkefnisins voru að þróa og kenna sérhæft tölvutækninámskeið fyrir fólk á einhverfurófi sem býr við skerta námsfærni og atvinnumöguleika vegna fötlunar sinnar og að bæta atvinnumöguleika fatlaðs fólks. Verkefnið var unnið í samstarfi við Fjölmennt, Promennt og Specialisterne. Verkefnið var styrkt af mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Grunnnám í meðferð matvæla fyrir námsmenn með sérþarfir.
Í verkefninu var námskrá FA Grunnnám í meðferð matvæla aðlöguð fyrir fólk með sérþarfir. Einum tilraunahópi var kennt skv. nýrri námskrá og kennsla og námsefni aðlagað hópnum jöfnum höndum. Verkefnið var unnið í samstarfi við Fjölmennt og Sýni. Það var styrkt af mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

CoachLang. Coaching and encouraging adult migrant language use in working life – styrkt af Nordplus.
Verkefnið var norrænt mannaskiptaverkefni. Verkefnastjórar, náms- og starfsráðgjafar og kennarar í íslensku sem öðru máli fóru til Norðurlanda að kynna sér tungumálanám og starfstengd úrræði fyrir erlenda atvinnuleitendur.

eEnrich – styrkt af Grundtvig áætluninni.
Markmið verkefnisins var að kynslóðir lærðu hvor af annarri í gegnum samstarf og sameiginleg verkefni. Mörg lönd tóku þátt og verkefnin voru af ýmsum toga.

LETSGO through Culture (Language, Education, Teaching Skills, Growing Opportunities through Culture) – styrkt af Grundtvig áætluninni.
Samstarfslöndin voru sjö og markmið verkefnisins var að tengja saman menningar- og tungumálakennslu auk fjölmenningarlegra kennsluhætti, bæði í kennslu erlendra tungumála og í kennslu fyrir innflytjendur.

eMPROS: Exploring migrants‘ basic professional skills nonverbally – styrkt af Leonardo áætluninni.
Markmið verkefnisins var að samstarfsaðilar lærðu af reynslu og þekkingu innan hópsins af því að meta starfsþekkingu og starfsfærni innflytjenda með því að nota ólík verkfæri og aðferðir. Einnig voru notuð rafræn próf í iðngreinum sem eru sérhæfð til að meta færni fólks af erlendum uppruna án þess að tungumál sé hindrun.

Inlärningssvårigheter på arbetsplats. (Sértækir námsörðugleikar og áhrif þeirra á vinnustað) - styrkt af norrænu ráðherranefndinni sem hluti af Nordplus Voksen áætlunina.
Markmiðið verkefnisins var að kortleggja vinnustaði með tilliti til þess hvort einstaklingar með sértæka námsörðugleika séu á vinnustaðnum og hvort komið sé til móts við fólk með slíka erfiðleika á vinnustaðnum.